Á áttunda áratug síðustu aldar var almenn umræða um samfélagsmál með allt öðru sniði en nú á dögum. Íslensk tunga átti fá orð 

í félagsvísindum og orð eins og samkynhneigð, gagnkynhneigð og sjálfsmynd voru ekki til. Þá voru aðeins til skammaryrði og ónefni um homma og sjálft orðið hommi var harðbannað og fékkst hvergi birt í blöðum eða útvarpi. Opinberlega voru engir hommar til á Íslandi og almenn umræða um málefni þeirra var útilokuð.

Í Danmörku, Noregi og Svíþjóð höfðu samtök samkynhneigðra verið stofnuð næstum þrjátíu árum fyrr og rót þeirra allra var í skemmtanalífinu. Þegar nasistar hernámu Danmörku í seinna stríði lokuðu þeir öllum hommabörum en þeir spruttu upp aftur strax eftir stríð. Þar náðu frumherjar í réttindabaráttunni sambandi við aðra homma og þangað sóttu þeir félaga í fyrstu samtök samkynhneigðra á Norðurlöndum sem voru ein þau fyrstu í heiminum. Fyrstu samtökin urðu til í Kaupmannahöfn 1948 og félagar í dönsku samtökunum stofnuðu síðan deildir í Osló og Stokkhólmi.