Á níunda áratugnum varð smám saman auðveldara að komast til útlanda og menn sóttu sem fyrr til landa sem voru komin lengra í frelsisátt.
Í Danmörku og Hollandi hafði gay baráttan náð mestum árangri og vestanhafs heilluðu stórborgirnar New York og San Francisco.
Sumir fluttust alfarið úr landi, fundu sér lífsförunaut og vegnaði vel. Aðrir fóru utan í ævintýraleit og kynntust alvöru gay lífi af eigin raun. Þá kom sér vel að fá leiðsögn og gistingu hjá löndum sem bjuggu á staðnum og þekktu til. Gestrisin heimili í New York og Kaupmannahöfn urðu þannig eins konar gay sendiráð. Strákarnir frá Íslandi kynntust gay félagslífi í mörgum myndum. Það gat verið á gay kaffihúsum á daginn eða á gay börum og klúbbum á kvöldin og jafnvel í almenningsgörðum þegar leið á nóttina.
Hvernig karlmaður reynir við karlmann vafðist fyrir mörgum en með reynslunni varð það eðlilegt og sjálfsagt mál. Slík ferðalög og kynni við gay líf í útlöndum urðu mörgum mikil reynsla og óhætt að segja að menn færu utan í svarthvítu og kæmu heim í lit.