Félagarnir sem hófu baráttuna mundu vel þá tíma þegar hommar voru álitnir níðingar og úrhrök. Alnæmi ógnaði þeim í fimmtán ár og lagði marga að velli. 

Enginn hristir slíka lífsreynslu auðveldlega af sér. Nú voru þeir komnir á efri ár og raðir þeirra farnar að þynnast. Þeir höfðu enn baráttuviljann en þurftu að sinna eigin málum og höfðu ekki lengur krafta aflögu fyrir gay hreyfinguna. Hommar og lesbíur sem höfðu helgað gay hreyfingunni krafta sína í þrjátíu ár þóttust skila góðu búi og treystu yngra fólki fullkomlega til að taka við Samtökunum.

Um og eftir 2010 komu félagar í Samtökin sem þekktu bara full réttindi, virðingu og velgengni samkynhneigðra á nýrri öld og voru móttækilegir fyrir róttækri orðræðu eftir efnahagshrun og búsáhaldabyltingu. Nýju félagarnir þekktu ekki sögu frelsisbaráttunnar, áttuðu sig ekki á hvernig gay hreyfingin varð til og litu á Samtökin sem opinbera stofnun sem væri hluti af kerfinu. Þetta fólk kom að dúkuðu borði og skorti skilning á mikilvægi skemmtanalífs, félagslífs og menningarstarfs til að standa vörð um réttindi og menningu gay fólks.