Saga gay hreyfingarinnar á Íslandi allt frá þögn og þjakandi aðstæðum til frelsis og sjálfstæðis er ævintýri líkust.
Frá fyrstu félagasamtökum til sigurs fjöldahreyfingar liðu fjörutíu ár, næstum hálf öld. Hér er atburðarásin rakin í stórum dráttum í samhengi, einkum frá sjónarhorni homma, sem höfundur þekkir best, og áhersla er lögð á það hvernig barátta gay fólks fór fram í daglega lífinu. Sagt er frá ýmsu í þessari löngu sögu sem hefur ekki komið fram áður og hvernig hreyfingin óx og dafnaði með samstöðu og samheldni þrátt fyrir skelfilegar hremmingar. Að lokum er því lýst hvernig önnur hreyfing yfirtók félag gay hreyfingarinnar, breytti félagslegri hreyfingu gay fólks í félag pólitískra fræða og innrætingar og gjörbreytti tilgangi félagsins.
Frásögnin er byggð á minningum manna sem lifðu þessa tíma og aðgengilegum heimildum. Sérstakar þakkir fær Veturliði Guðnason. Aðstoð hans var ómetanlegt framlag til bókarinnar.
Reykjavík, í ágúst 2023,
Böðvar Björnsson.